Virkt tvítyngi er farsælt fyrir nám og líf barna

Talað er um að tungumál smáþjóða týni tölunni á miklum hraða. Íslenskan þar á meðal. Stafræn tækni, falsfréttir, samfélagsmiðlar og breytt heimsmynd ýta undir að þetta sérstaka tungumál sem lifað hefur í þúsund ár stendur völtum fótum. Við vitum þó auðvitað ekki hvað bíður íslenskunnar, en við þurfum í það minnsta að standa vörð um hana og stuðla að því að börn af íslenskum uppruna hafi gott aðgengi að íslenskukennslu.

Móðurmál

Samkvæmt Íslenskri orðabók er „móðurmál” skilgreint sem: mál sem einhver hefur lært sem barn og er alinn upp við; ríkismál í heimalandi. Á vísindavef Háskóla Íslands kemur fram að merking orðsins sé víðari en það og að með hugtakinu er ekki aðeins átt við það mál sem móðirin talar. Einnig merkir málið í hefðbundnum skilningi oft það mál sem menn hugsa á, dreymir á og svo framvegis. Móðurmál getur verið málið, sem börn læra á undan öðrum málum, eða málið sem málnotendur ráða best við. Aðalnámsskrá Grunnskóla skilgreinir móðurmál sem það tungumál sem barnið lærir fyrst, er því tamast og talað er á heimili þess, stundum aðeins af öðru foreldri.

Tvítyngi
Sumir einstaklingar hafa fleiri en eitt móðurmál og eru tvítyngdir. Einnig eru sum samfélög tvítyngd eða fjöltyngd eins og til dæmis Swiss þar sem töluð er franska, þýska, ítalska og kantónska. Það er erfitt að útskýra tvítyngi og það er ekki til nein ein einföld skilgreining. Í sinni víðustu merkingu er tvítyngdur einstaklingur sá sem hefur tvö mál á valdi sínu en máltaka tveggja mála samtímis leiðir til tvítyngis. Börn sem teljast tvítyngd eru börn sem læra tvö eða fleiri tungumál samtímis þegar þau eru ung. Í öðru lagi geta börn líka orðið tvítyngd ef máltaka annars mál hefst á eftir því fyrsta en báðum málunum er haldið við. Í báðum tilvikum verða tungumálin móðurmál barnsins. Þegar börn byrja að læra annað mál eftir máltöku á sínu fyrsta máli eins og þegar börn flytjast á milli landa er mikilvægt að halda við móðurmálinu því annars hefur það neikvæð áhrif á málþroska og læsi. Þetta á aðallega við um börn, er skipta um tungumál samtímis því að læra að lesa um 5 til 8 ára gömul.

Málskipti
Talað er um málskipti þegar barn hættir að tala móðurmál sitt og skiptir yfir í nýtt tungumál. Slík málskipti hafa bæði slæm áhrif á málþroska barnanna og sjálfsmynd þeirra. Ef málumhverfi barna breytist á viðkvæmu skeiði í málþroska þeirra þarf nauðsynlega að halda móðurmálinu við og þróa það áfram. Áherslan ætti því að vera á virkt tvítyngi en ekki málskipti. Það getur tekið nemendur mjög skamman tíma, 2-3 ár eða jafnvel skemur, að tapa niður móðurmáli sínu sé því ekki viðhaldið. Hvers vegna er mikilvægt að halda móðurmálinu við? Markviss örvun móðurmálsins eykur fremur en hindrar framfarir í beitingu annars tungumáls. Góður grunnur í móðurmálinu er góð undirstaða fyrir lærdóm á öðru máli. Móðurmál er nátengt sjálfsvitund nemenda. Tapi nemandi móðurmálinu tapar hann hluta af sjálfum sér og færninni til að eiga þroskuð samskipti við foreldra og ættingja.

Í skilgreiningu hugtaka hér að ofan er stuðst við skrif Jim Cummins, Birnu Arnbjörnsdóttur og Elínar Þallar Þórðardóttur.

Íslendingar í útlöndum
Í nýútkominni skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál er að finna tölur um fjölda Íslendinga sem búsettir eru í útlöndum. Alls eru þeir 49.218 talsins og eru þær tölur byggðar á tölum Þjóðskrár og Lánasjóði íslenskra námsmanna. Langstærstur hluti þessa hóps er búsettur á Norðurlöndum og búa tæplega 30 þúsund manns í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Íslendingar eru einnig fjölmennir í Bandaríkjunum en þar eru um 6.800 Íslendingar skráðir til heimilis. Inni í þessum tölum eru ekki þeir fjölmargir Íslendingar sem eiga fasteignir á suðrænum slóðum og dvelja þar hluta úr ári. Einnig þarf að taka fram að tölulegar upplýsingar um Íslendinga í útlöndum eru ekki einhlítar. Þannig berast upplýsingar um andlát oft seint og um síðir og einhverjir kunna að hafa tvöfalt ríkisfang og eru jafnvel með lítil tengsl við landið. Eru þetta til að mynda börn íslenskra ríkisborgara sem fæðast erlendis.
Íslendingar mjög ævintýragjarnir og óhræddir við að vera hreyfanlegir í samanburði við aðrar þjóðir. Íslendingar eru til að mynda tvöfalt líklegri til að flytja á milli landa en Danir og þrisvar til fórum sinnum líklegri en Svíar. Rík hefð er fyrir því meðal íslendinga að flytja til Norðurlandanna því þar höfum við notið allra sömu réttinda og á Íslandi, en með tilkomu EES opnuðust gáttir til annara Evrópulanda.

Meirihluti fráfluttra skilar sér þó aftur til Íslands á einhverjum tímapunkti. Þannig eru 70 prósent þeirra sem flytja til útlanda flutt aftur heim innan sjö ára, svo leiða má líkur að því að margir fari utan til náms.

person writing on notebook

Íslenskukennsla Nordic Trailblazers

Nordic Trailblazers er danskt fyrirtæki í eigu íslendinga. Fyrirtækið sinnir ráðgjöf, þjálfun og kennslu fyrir Norðurlandabúa búsetta víðsvegar um heiminn og er nafnið skýrskotun til þess.
Öll þjónusta Nordic Trailblazers fer fram á netinu í gegnum íslenska vefforritið Kara Connect og námsvefinn LearnCove sem einnig er íslenskt hugvit. Það gerum við til að tryggja persónuverndaröryggi hvers nemanda. Nordic Trailblazers hófu að bjóða upp á einstaklingsmiðaða íslenskukennslu fyrir börn og unglinga af íslenskum uppruna búsett víðsvegar um heiminn nú á haustmánuðum. Er einnig boðið upp á tíma í íslensku fyrir fullorðna sem hafa íslensku sem annað tungumál. Allir kennarar okkar eru menntaðir móðurmálskennarar og einnig skila allir kennarar inn hreinu sakavottorði.

Flestir nemenda okkar í einstaklingsmiðuðu íslenskukennslunni eru krakkar á aldrinum 6-18 ára. Mjög mörg eru fædd erlendis og því með tvöfalt ríkisfang, stór hluti er með annað foreldrið af erlendum uppruna.

Námið á þessari fyrstu haustönn hefur farið vel af stað og eru bæði nemendur og foreldrar kappsöm um mikilvægi þess að viðhalda íslenskunni og fjárfesta í þeim merka menningararfi sem það gefur okkur að vera frá Íslandi.

Til stendur að bjóða upp á staðlaða námskeiðspakka í mismunandi erfiðleikastigum sem hægt verður að kaupa á heimasíðu Nordic Trailblazers og nema í sínum eigin tíma.

Nordic Trailblazers vinnur eftir aðgerðaráætlun 2019-2022 um vitundarvakningu um íslenska tungu og mun leggja sitt af mörkum við að styrkja stoðir íslenskukennslu á erlendri grundu. Okkar markmið er að nýta nýjustu tækni til hagsbóta fyrir þá fjölmörgu sem vilja læra íslensku, með sérstakri áherslu á börn og ungmenni sem búa utan Íslands.

Comments are closed.

%d bloggers like this: